148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[17:50]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni um að frumvarpið snertir afar marga fleti. Áhrifin eru víðtæk og snerta í raun öll svið samfélagsins. Á móti þeim kostnaði sem ég hef rætt og hefur verið megininntakið í ræðum mínum, kemur sú réttarbót sem hv. þingmaður kom inn á, sem er vissulega mikilvæg, ég vil alls ekki draga úr því. Ég sagði í upphafi að það væri margt jákvætt í frumvarpinu. Við eigum að fagna því. En þetta snýr í mínum huga fyrst og fremst að þeim undirbúningi sem ég hef nefnt, sérstaklega í ljósi þess þegar hér kemur fram mjög mikilvægt mál, réttarbætur á ákveðnu sviði sem er okkur öllum afar mikilvægt. Þá þarf allur undirbúningur að vera vandaður. Það sjá það allir að þingmenn sem fengu frumvarpið afhent í gærkvöldi hafa ekki haft nein tök á að kynna sér af neinu viti frumvarp sem er upp á tæpar 150 síður.

Ég kynnti mér sérstaklega þáttinn varðandi sveitarfélögin, vegna þess að hann skiptir verulegu máli. Það er lítið gagn í svona frumvarpi þegar ekki fylgja fjárveitingar til að innleiða og standa að eðlilegum og góðum undirbúningi. Það er umhugsunarefni fyrir okkur öll hér, sérstaklega ríkisstjórnina sem talar endalaust um að efla störf Alþingis og eftirlitshlutverk og svo framvegis og svo er allt framkvæmt og gert (Forseti hringir.) öfugt við það. Efling Alþingis í augum ríkisstjórnarinnar er náttúrlega hreint og beint öfugmæli.