148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[17:57]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég er sammála þessu. Það er auðvitað í fyrsta lagi alveg fráleitt hversu stuttan tíma við fáum til að ræða þetta og góðar ástæður til að taka okkur þann tíma sem við þurfum til að geta gert þetta rétt. En ég held að ég sé ósammála í grunninn varðandi það að það sé kannski of bratt að ráðast í ráðningu 22 starfsmanna til Persónuverndar. Nú hef ég heimsótt Persónuvernd, reyndar fyrir nokkrum árum, og forvitnaðist um mönnunina. Þar kom fram sem mér þótti áhugavert að það væri enginn tæknimaður sem ynni þarna. Nú er starf Persónuverndar mjög tæknilegs eðlis. Það er kannski fyrst og fremst lögfræðilegt en það eru mörg tæknileg atriði sem koma upp og alveg fráleitt að svona stofnun hafi ekki haft tæknimann. Síðast þegar ég hafði upplýsingar, sem var fyrir ári, var það enn þá tilfellið. Það hefur verið þörf á fleiri starfsmönnum, bæði á lögfræðihliðinni og hinum megin, til mjög langs tíma.

En spurningin í þessu er kannski ekki síst: Hversu mikill peningur er of mikill peningur til að vernda réttindi borgaranna? Það er ótrúlega mikilvægt að svara þeirri spurningu. Ef maður trúir því að réttindi séu algild verður svarið að vera að engin upphæð sé nógu há. En það er enginn skynsamur maður sem fer svo frjálslega með ríkisbudduna eða aðrar buddur. Einhvers staðar verðum við að draga línuna. Við verðum einhvern tímann að segja að það megi eyða svona miklu en ekki umfram það. Þetta jafnvægi sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson talar um er spurningin: Hvar drögum við línuna, hvernig drögum við hana? Kannski getur hv. þingmaður hjálpað mér að losna úr þessari heimspekilegu klemmu.