148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[17:59]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er áhugavert hjá hv. þingmanni. Sá sem hér stendur er nú talsmaður ráðdeildar í ríkisfjármálum, enda er ég nefndarmaður í fjárlaganefnd og það er okkar hlutverk. 300 milljónir kr. aukalega á ári til Persónuverndar eru miklir peningar. Varðandi sveitarfélögin er verið að tala um að árlegur rekstrarkostnaður verði allt að 470 millj. kr. á ári. Þetta eru háar upphæðir. Það er skylda okkar að fara mjög vandlega yfir það hvort það sé virkilega svo að það þurfi að fjölga svo mjög hjá Persónuvernd. Nú tek ég fram að sú ágæta stofnun hefur unnið mjög gott starf, ég ætla ekki að draga úr því. En við þurfum að forgangsraða og sjá hvar peningarnir nýtast best. Í þessu sambandi er mjög brýnt að við förum algerlega ofan í saumana á því hvað við erum tilbúin að setja mikla peninga í þetta strax í upphafi.

Hæstv. ráðherra sagði áðan í sinni ræðu að hún ætlaði bara að sjá til hvernig þetta þróaðist allt saman. Þá var hún að vísa til sektargreiðslna og heimilda fyrir háum sektum sem er að finna í þessu frumvarpi. Ég verð fyrir mína parta að segja að það er enginn undirbúningur. Þetta verður að fara nákvæmlega ofan í saumana á þessu. Vissulega hafa hlutirnir verið kostnaðargreindir en við verðum að spyrja okkur að því hér og nú: Erum við tilbúin til að setja allan þennan pening í þetta? Er hægt að gera þetta með minni tilkostnaði?