148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

breyting á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld.

423. mál
[18:09]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld, hlutabréfakaup, skuldajöfnun og álagningu o.fl.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín sérfræðinga frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, frá ríkisskattstjóra, frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum ákvæðum sem snerta skatta og gjöld í átta lagabálkum. Lúta breytingarnar að rýmkun skilyrða fyrir nýtingu skattafsláttar í tengslum við hlutabréfakaup við tilteknar aðstæður, setningu reglna um skattalegar ívilnanir um tekjuskatt, rafrænum samskiptum og rafrænni birtingu álagningar, orðalagi um tekjur af útleigu íbúðarhúsnæðis og skuldajöfnun endurgreiðslukrafna við vangoldna skatta og gjöld. Auk þess eru lagðar til breytingar á dagsetningum ýmissa gjald- og álagningardaga sem nauðsynlegt er vegna flýtingar á álagningu opinberra gjalda á árinu 2018.

Með 1. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 1. tölulið B-liðar 1. mgr. 30. gr. laga um tekjuskatt sem kveður á um heimild til frádráttar frá tekjuskattsstofni einstaklinga sem til er kominn vegna hlutabréfakaupa að nánar tilteknum skilyrðum uppfylltum. Breytingin lýtur að slökun þeirra skilyrða sem varða tengsl einstaklings og þess félags sem hann fjárfestir í og takmörkun á þeirri skyldu að skilyrðin skuli uppfyllt í ákveðinn tíma eftir að hlutafjáraukningin á sér stað.

Nefndinni bárust ábendingar um að tilefni væri til frekari breytinga og skoðunar á 1. tölulið B-liðar 30. gr. skattalaga en lagðar eru til í þessu frumvarpi. Vegna þessa telur nefndin rétt að beðið sé með þessar breytingar á ákvæðinu og beinir því til fjármála- og efnahagsráðuneytisins að fram fari ítarlegri endurskoðun á ákvæðinu þar sem tekið er tillit til þeirra sjónarmiða sem fram hafa komið. Tillögur ráðuneytisins komi fram við upphaf 149. löggjafarþings.

Þetta skiptir máli þar sem við erum auðvitað að reyna að ýta undir fjárfestingu í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að í 3. mgr. 65. gr. tekjuskattslaga verði kveðið á um að ríkisskattstjóri setji reglur um skilyrði ívilnunar samkvæmt greininni í stað heimildar ráðherra til setningar reglugerðar þar um. Ríkisskattstjóri gefi reglurnar út í upphafi hvers árs að fenginni staðfestingu ráðherra. Ríkisskattstjóri kom þeim sjónarmiðum á framfæri við nefndina að ekki væri þörf á að kveða á um staðfestingu ráðherra á reglunum eða að þær yrðu settar í upphafi hvers árs, nægjanlegt væri að ríkisskattstjóra væri falið að setja og birta reglurnar. Nefndin leitaði viðbragða ráðuneytisins við breytingartillögu ríkisskattstjóra. Benti ráðuneytið á að ívilnanir til einstaklinga gætu leitt til umtalsverðra breytinga á tekjuskattsstofni þeirra sem í hlut ættu og þar með skattalækkana. Á það hefur verið bent að óeðlilegt væri, og jafnvel stjórnarskrárbrot, að fjármálaráðherra hefði ekki sett reglugerð þar að lútandi eða hefði ekki aðkomu að setningu reglnanna sem beitt væri. Þessi rök lægju að baki tillögu frumvarpsins. Nefndin leggur til að 3. gr. frumvarpsins standi óbreytt en bendir um leið á mikilvægi þess að krafan um staðfestingu ráðherra á reglunum íþyngi útgáfu þeirra ekki þannig að hún dragist á langinn.

Í 4. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á því hvernig vísað er til leiguhúsnæðis í 3. málslið 3. mgr. 66. gr. tekjuskattslaganna og er breytingin til samræmis við breytingar sem gerðar voru á a-lið 1. mgr. 58. gr. og a-lið 5. töluliðar 70. gr. laganna á síðasta þingi.

Sem fyrr greinir lúta nokkrar af greinum frumvarpsins að breytingu á ýmsum dagsetningum í tengslum við álagningu skatta og gjalda. Í greinargerð um þetta atriði segir að undanfarið hafi álagning á einstaklinga farið fram í lok júní ár hvert og kærufrestur verið tveir mánuðir en álagning á lögaðila hafi farið fram í lok október. Tímasetningar á lokum álagningar hafi frá upphafi ráðist af skorti á tæknilegri getu til að vinna álagninguna á skemmri tíma. Með örum tækniframförum sé nú unnt að leggja nánast fullbúin skattframtöl fyrir allan þorra framteljenda og því sé svigrúm til að stytta þann tíma sem ætlaður er til skila á skattframtölum umtalsvert, sem t.d. sé heppilegt vegna samantektar á þjóðhagsstærðum. Er því lagt til að álagningardegi verði flýtt og að samhliða því verði kærufrestur lengdur. Í 14. gr. frumvarpsins um gjalddaga tryggingagjalds vegna launa og hlunninda sem undanþegin eru staðgreiðslu er ranglega tilgreint að gjalddagi einstaklinga verði 1. júlí, þar sem ætlunin er að hann verði 1. júní til samræmis við meginstefnu breytinganna. Leggur nefndin því til leiðréttingu á dagsetningu þessari.

Að þessu framangreindu leggur efnahags- og viðskiptanefnd til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í nefndarálitinu

Undir álitið rita sá er hér stendur, Óli Björn Kárason, og hv. þingmenn Þorsteinn Víglundsson, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Oddný G. Harðardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Líneik Anna Sævarsdóttir.

Rétt er að geta þess að Ólafur Ísleifsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, styður þetta nefndarálit.