148. löggjafarþing — 64. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[19:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ráðherra á svæðinu, hann hefði kannski áhuga á að kynna sér þetta.

Aðeins tengt þessu þá heyrði ég nýlega af máli í fjölbýlishúsi. Fólk getur skráð sig í fjölbýlishús án þess að skrá sig sérstaklega í íbúð. Það er því hægt að vera skráður í fjölbýlishús án þess að nokkur viti að þú býrð þar. Íbúar fjölbýlishússins fá sendan póst og spurt er: Hvar býr þessi? Það eru líka dæmi um að tugir starfsmanna séu skráðir á lögheimili einhvers, þar sem er starfsmannaleiga eða eitthvað svoleiðis, þó augljóslega geti húsið ekki borið þann fjölda fólks. Maður veltir fyrir sér hvort þeir einstaklingar verði allt í einu samskattaðir. Kannski? Þeir hafa verið skráðir á sama heimilisfang, þetta getur verið dálítið flókið með fjölbýlishús.

Ég er ekki alveg eins hræddur við þennan hluta af frumvarpinu, hvað þetta varðar, því að sjónum er meira beint að því að ákveðið samþykki þurfi og upplýsingu o.s.frv. En það ákvæði sem ég vísaði í hér áðan, og það sem hv. þingmaður talar um varðandi almannatryggingalögin, bendir einmitt til þess að þetta eigi ekki við um stjórnvöld eða stofnanir á einhvern hátt; þetta beinist að fyrirtækjum. Mér þætti voðalega gaman ef dómsmálaráðherra gæti kannski komið og skýrt þetta út fyrir okkur.