148. löggjafarþing — 64. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[19:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Maður rekur augun í ýmislegt í yfirferðinni þegar maður les með öðrum þingmönnum. Í 5. gr. er einmitt talað um, svipað og hv. þingmaður byrjaði ræðu sína á, að ákvæði reglugerðarinnar gangi framar ákvæðum laganna sjálfra. Sérákvæði annarra laga, sem sett eru innan ramma reglugerðarinnar, ganga líka framar ákvæðum þessara laga. Fyrir mig býr þetta til nýtt lag af flækjum sem þarf að skoða með tilliti til þessara laga. Hvaða áhrif hefur reglugerðin á öll þessi lög og þær aðstæður sem geta komið upp í samfélaginu varðandi persónuverndarleka o.s.frv.? Hvernig er samspilið í þessu öllu og hversu nauðsynlegt er fyrir okkur að samþykkja nákvæmlega þetta frumvarp ef reglugerðin væri bara samþykkt?

Ég held að við þurfum að fá dálitla útskýringu á þessu hjá ráðuneytinu, hjá dómsmálaráðherra. Ég skil ekki af hverju hún er ekki í salnum eða í hliðarsal til að útskýra þetta aðeins betur. Við erum að glíma við þrennt í rauninni, reglugerðina, þessi væntanlegu lög sem skipta út og breyta mörgum öðrum lögum og svo sérlög sem er ekki verið að breyta eins og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristjánsson benti á, t.d. almannatryggingalög sem nota mikið af persónuupplýsingum. Hvernig breytist það þegar núverandi persónuverndarlögum er kippt burt og þessi sett inn í staðinn? Það kemur ný reglugerð sem hefur áhrif á þetta allt. Mig langaði að vita hvort hv. þingmaður sé eins ringlaður og ég (Forseti hringir.) í þessum graut sem er verið að búa til rétt í þinglokin.