148. löggjafarþing — 64. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[19:33]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég er að mörgu leyti sammála því sem hv. þm. Logi Einarsson fjallaði um. Áhyggjuefnin eru mörg. Ég hef miklar áhyggjur af því hvernig aðlögunin fór fram og það er ekki algerlega skýrt í mínum huga hvar mörkin liggja á milli GDPR-reglugerðarinnar annars vegar og þessa frumvarps sem við ræðum hins vegar liggja, hvort svokölluð gullhúðun hefur farið fram með viðbótum úr ráðuneytinu eftir þeirra höfði eða hvað.

En úr því að hv. þingmaður talaði mikið um sveitarfélögin og ég virðist hafa fengið óendanlega tíma þá velti ég fyrir mér: Það eru greinilega margir sem hafa áhyggjur af sveitarfélögunum. Hv. þm. Birgir Þórarinsson talaði áðan um svipaða hluti. En persónulega hef ég miklu meiri áhyggjur af öðrum gagnagrunnum, t.d. fyrirtækja og stofnana annarra en sveitarfélaga, til að mynda þeim þúsundum gagnagrunna úti um allt land sem gætu hugsanlega fallið undir GDPR — eða ekki — vegna þess hvað 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins er loðin.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi leitt hugann að því hvernig umskiptin eiga eftir að verða fyrir t.d. bókasöfn og félagasamtök sem eru með námskeiðaskrár og annað slíkt sem gæti að einhverju leyti verið safnað sjálfvirkt — eða ekki. Sjálfvirknin skilur mikið svigrúm eftir til túlkunar í þessu ákvæði og ég veit ekki hvar mörkin liggja nákvæmlega (Forseti hringir.) í tilfelli sjálfvirkrar skönnunar á bókasafnskortum og álíka.