148. löggjafarþing — 64. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[20:38]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar upplýsingar sem er safnað eiga einstaklingar rétt á því að vita nákvæmlega hverju hver vefsíða, hver aðili, hvert fyrirtæki, hvaðeina, safnar, nákvæmlega hvaða gögnum er safnað, í hvaða tilgangi, hvernig þau gögn verða notuð, hvort aðrir aðilar, þriðju aðilar, fái afrit af þeim gögnum, hvort búin séu til ný gögn úr þeim gögnum o.s.frv. Það er allt saman inni í þessu. Þetta er auðvitað heilmikið.

Nú veit ég að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hefur legið sveittur yfir því undanfarnar vikur að uppfæra kosningakerfi Pírata til þess að vera í fullkomnu samræmi við GDPR-reglugerðina. Hugsa þarf út í furðulegustu smáatriði.

Ég ætla að hætta mér út í að tala tæknilega — eins og ég hafi ekki gert það áður. Tökum sem dæmi like-takka á Facebook, eða hvaða takka sem er frá þriðja aðila. Ef slíkur takki er inni á vefsíðu getur sú þjónusta sett svokallað smáköku í vafrann hjá manni. Það er óháð því hvort viðkomandi sé notandi þeirrar þjónustu eða ekki. Segjum sem svo að maður hafi alla tíð verið ákveðinn í því að vilja ekki vera á Facebook og hafi aldrei búið til aðgang. Það er samt þannig að Facebook getur fylgst með manni, haft þessa smáköku í vafranum hjá manni — nema maður hafi sérstaklega lokað á það — og með því er hægt að fylgjast með manni í gegnum netið. Þetta er svokallaður skuggaprófíll og það gefur augaleið að sá sem undirgengst slíkan skuggaprófíl hefur aldrei gefið Facebook leyfi fyrir því að fylgjast með sér á þennan hátt. Og þetta er ekki aðeins Facebook, þótt það sé kannski stærsti aðilinn, það eru hundruð aðila á netinu sem gera sömu eða svipaða hluti (Forseti hringir.) og hafa gríðarleg völd yfir persónuupplýsingum fólks. Það þarf auðvitað að takmarka.