148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[10:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil mótmæla harðlega þeirri dagskrá sem er birt hér fyrir þennan þingfund og ég krefst þess að 11. málið verði tekið af dagskrá. Þarna er um stórpólitískt mál að ræða. Það er verið að tala um að lækka veiðigjöldin um tæpa 3 milljarða kr. Ríkisstjórnin treystir sér ekki til þess að fara með málið í gegnum þingflokka og hér inn í þingsal og lætur þingmenn í atvinnuveganefnd bera það hingað inn.

Satt að segja, herra forseti, er það að setja málið hér á dagskrá eins og blaut tuska framan í okkur þingflokksformenn sem höfum unnið eftir ákveðnu samkomulagi þegar kemur að þingmannamálum. Það er verið að brjóta það kirfilega. Það er óásættanlegt. Við munum ekki taka það í mál að svona sé komið fram við þingið og þingflokksformenn. Málið verður ekki á dagskrá þingsins í dag. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)