148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[10:43]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nú vill svo til að þetta mál var komið fram í atvinnuveganefnd og var rutt í gegn á mettíma í gær án þess að búið væri að kanna allar forsendur nægilega vel. Það var gert í bullandi ósætti. Það voru mikil mótmæli af hálfu fjögurra nefndarmanna gegn því að þetta yrði gert með þeim hætti. Boðið var upp á að hlutirnir væru gerðir á annan hátt, sem væri eðlilegt skref í átt að því að ná lágmarksbreytingunum sem þyrfti vegna þess sem nú er aðkallandi. Því var ekki sinnt.

Þetta mál á nú að fara fram fyrir öll önnur þingmannamál, þar með talin mál sem hafa jafnvel legið tilbúin mánuðum saman. Þetta er eiginlega fyrir neðan allar hellur. Ég bið hæstv. forseta vinsamlegast að standa með þinginu og vinna í átt að því að hlutirnir verði unnir hér með eðlilegum hætti.