148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[11:35]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vill segja í fyrsta lagi að að sjálfsögðu þarf ekki að fjölyrða um að það er óheppilegt þegar þingmál koma seint fram ef engu að síður er metið svo að nauðsynlegt sé að þingið takist á við þau áður en það lýkur störfum, hvort heldur sem er að vori eða fyrir jól.

Í öðru lagi um dagskrá fundarins í dag vill forseti árétta að hún er í öllum greinum eins og gert var ráð fyrir og sent var út til þingflokksformanna fyrir helgi og rætt aftur á fundum á mánudag að því undanskildu að enn er á dagskránni tillaga utanríkisráðherra um Evrópureglugerð. Það lá vissulega ekki fyrir hvort og þá hvaða mál kynnu að koma úr þingnefndum en það var vitað að þingnefndir væru að ræða það, annaðhvort í heild sinni eða meiri hluti innan þeirra, að leggja fram mál og að þau yrðu þá tekin til 1. umr.

Varðandi önnur þingmannamál hefur ekki staðið á því að forseti taki þau á dagskrá að því tilskildu að þau séu komin út úr nefndum — það þarf auðvitað ekki að ræða það að mál sem enn eru í nefndum verða ekki sett á dagskrá — og að því tilskildu að nefndarálit a.m.k. meiri hluta eða nefndar hafi borist. Þannig háttar til um þau þingmannamál tvö sem eru á þessari dagskrá að í báðum tilvikum bárust nefndarálit í gær þannig að þeim var hægt að útbýta fyrir nóttina. Önnur mál sem ekki voru þangað komin gátu eðli málsins samkvæmt ekki komið á dagskrá. (Gripið fram í.)

Forseti minnir á að hann hafði óskað eftir því að hitta þingflokksformenn kl. 12.30. Það er ekki víst að sú tímasetning standist en um leið og lokið er óundirbúnum fyrirspurnum og sérstakri umræðu að ósk stjórnarandstöðunnar, sem ég geri ráð fyrir að menn hafi áhuga á að fari fram, verður boðað til þess fundar.