148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

hvalveiðar.

[11:42]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir og ætla ekki að skipta mér af því hvort hann nennir að sitja undir þessu eða ekki, það verður að vera undir honum sjálfum komið. Það er alveg ljóst að þessi ráðherra stendur fyrst og fremst fyrir umhverfis- og náttúruvernd. Þessi ráðherra hefur beitt sér fyrir því að fá stóraukið fjármagn í þennan málaflokk, sem munar 35% ef miðað er við árið 2017; á næstu fimm árum tæpir 7 milljarðar í loftslagsmál, 7,5 milljarðar í náttúruverndarmál. Ég veit ekki til þess að aðrir umhverfisráðherrar hafi gert betur þegar kemur að slíkum fjárhæðum í þennan málaflokk.

Ég vísa bara í það sem ég sagði hér áðan að reglugerð er í gildi. Ég veit ekki betur en að farið verði eftir henni fyrir þennan tíma. (IngS: Þú getur sett aðra reglugerð.) — Nei, ég get reyndar ekki sett neina reglugerð í þessu, þetta er allt á sviði sjávarútvegsráðherra. Því er það mál þar statt að ég (Forseti hringir.) veit ekki betur en að þetta verði klárað með þessum hætti. Hins vegar er fyrirhugað að fara í úttekt á þessum málum. Það er það sem liggur fyrir.