148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

skortur á hjúkrunarfræðingum.

[11:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu sem er eitt af stærstu viðfangsefnum íslenskrar heilbrigðisþjónustu, þ.e. mönnunarvandinn. Því miður lýtur hann að fleiri fagstéttum í heilbrigðisþjónustu en hjúkrunarfræðingum, en sérstaklega þeirri fagstétt.

Eitt af því sem er í pípunum er að uppfylla bókun sem undirrituð var af þremur ráðherrum með kjarasamningum við Bandalag háskólamanna sem lýtur að því að horfa til mannaflaspár en ekki síður mannaflaþarfar heilbrigðisþjónustunnar inn í framtíðina. Hún mun að miklu leyti taka mið af breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar þar sem við munum mögulega þurfa aðra samsetningu heilbrigðisþjónustunnar eftir því sem árin líða. Til þess þurfum við sérstaklega að taka.

Af því að hv. þingmaður spurði sérstaklega um lokun Hjartagáttarinnar og stöðuna á Landspítalanum nú í sumar, því að þingmaðurinn spyr bæði til lengri og skemmri tíma, þá verður þjónusta hjartasérfræðinga á bráðamóttökunni í Fossvogi tryggð, samkvæmt mínum upplýsingum frá Landspítalanum. Þeir sem þurfa bráðaaðgerðir verða fluttir á Hringbraut til aðgerðar. En rótin er auðvitað tvíþætt, annars vegar er það skortur á legurýmum og hins vegar mönnunarvandinn. Mönnunarvandinn er svo stórt viðfangsefni að við þurfum að halda áfram að leita allra leiða til að tryggja viðeigandi mönnun inni í heilbrigðiskerfinu í heild. Það er forgangsmál hjá mér og ég vil þiggja öll góð ráð hvað það varðar. En fyrst og fremst setjumst við niður með forystu heilbrigðisstofnananna, þeim sem veita menntunina, og fagstéttunum sjálfum til þess að leita leiða inn í framtíðina.

Því miður er þetta ekki bara viðfangsefni okkar hér á Íslandi heldur alþjóðlegt vandamál og verkefni, að manna sívaxandi þörf fyrir fagfólk í heilbrigðisþjónustu.