148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

endurskoðun skaðabótalaga.

[12:02]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. En ég vil líka benda henni á að verið er að auka skerðingar úr lífeyrissjóðum, tvo þriðju á að skerða. Hverjir eru það sem fá þessa tvo þriðju úr lífeyrissjóðunum? Það eru tryggingarnar. Hvernig standa tryggingafélögin í dag? Þau eru í samfestingi, þau eru með axlabönd, þau eru með belti til að halda gróðanum uppi, gífurlegum gróða. Og hvaðan fá þau gróðann? Úr bótasjóðum. Hvað er bótasjóður? Jú, það eru bætur sem tryggingafélögin leggja inn í sjóð vegna þess að einstaklingur lendir í slysi. Þetta eru sjóðir sem eru aldrei gerðir upp. Þetta eru sjóðir sem bólgna út. Við höfum séð þá fara í lúxusíbúðir í Kína eða á Tortólu eða annars staðar og koma til baka sem veð í sundlaug á Álftanesi. Það er með ólíkindum að svona skuli vera hægt. Þetta er ekkert varið. Ég segi: Eigum við ekki að taka aðeins á þessu og minnka gróða tryggingafélaga og auka bætur til þeirra sem hafa slasast og þurfa á þeim að halda?