148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

stytting náms til stúdentsprófs og staða nemenda.

[12:11]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Varðandi sveigjanleikann og að dreifa álaginu þá er ég sammála hv. þingmanni að við þurfum að huga að því vegna þess að þessi mikla stytting á sér stað þarna, en það er alveg augljóst að það verða þá auknar kröfur á grunnskólastiginu vegna þess að nemandi þarf að koma jafnvel betur undirbúinn inn á framhaldsskólastigið. Ég tel að við munum vera að vinna úr þessu og betrumbæta menntakerfið vegna styttingarinnar og það mun taka talsverðan tíma. Það mun ekki taka nokkur ár, en það mun taka einhvern tíma.

Ég vil svo sannarlega leita samstarfs og hv. þingmaður nefndi Menntaskólann í Reykjavík. Ég er opin fyrir þeim sveigjanleika að bjóða upp á það að ef menn vilja vera í námi þar í fjögur ár þá tel ég að við eigum að leyfa það og tala fyrir því og breyta jafnvel hlutunum þannig að svo megi vera. Ákveðinn sveigjanleiki gefur líka ákveðið frelsi til þess að skólastjórnendur og nemendur geti aðlagað sig því kerfi sem þeir vilja vera í. Þannig að ég er fremur jákvæð gagnvart því.