148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

samkomulag um lok þingstarfa.

[12:14]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vill meina að þingstörf hafi gengið allvel fram að þessu og sér ekki ástæðu til að gefa sér annað en að okkur gangi sömuleiðis vel áfram að ná saman um verkefni sem okkar bíða. Það er rétt að það hefur þegar komið í loftið að það kunni að þurfa að bæta einhverjum dögum við starfstíma Alþingis því að á það hefur réttilega verið bent að stór mál hafa komið óheppilega seint fram.

Varðandi áframhaldið er næst á dagskrá sérstök umræða að beiðni stjórnarandstöðunnar sem ég hafði gert ráð fyrir að menn hefðu áhuga á að færi fram. Að henni lokinni mun forseti hitta þingflokksformenn og hefur þegar óskað eftir því. Það stóð til að sá fundur yrði kl. hálfeitt en við sjáum hvernig því miðar og framhaldið verður síðan upplýst að þeim fundi loknum.