148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

samkomulag um lok þingstarfa.

[12:23]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Forseti sagði hér áðan að þingstörf hefðu farið vel fram núna í vor. Ég er ekki alveg viss hvað telst vera gott í því efni enda hef ég ekki verið hér jafn lengi og forsetinn, en ég get alveg ímyndað mér hvernig það ætti að vera.

Til dæmis komu fyrstu mál ríkisstjórnarinnar mjög seint fram og forseti ætti í rauninni að þakka stjórnarandstöðunni fyrir að það hafi yfir höfuð verið þingfært fyrstu mánuðina. Svo hafa mál komið afar seint fram og það hefur verið á skjön við hefðir og reglur, t.d. 1. apríl regluna, og ítrekað verið afgreitt með undanþágu án þess að endilega hafi verið mikið samþykki fyrir því af hálfu stjórnarandstöðunnar. Og fyrir þinghlé voru öll þingmannamál stopp inni í nefndum þrátt fyrir að þau hafi verið tilbúin til afgreiðslu. Þá nefni ég helst kosningaaldur en líka fullt af öðrum málum.

Ég hef heyrt úr ýmsum nefndum að ýmiss konar þvælingur hafi verið í gangi (Forseti hringir.) af hálfu þingmannameirihlutans til þess að stöðva allt. Ég hef orðið var við það sjálfur. (Forseti hringir.) Ég nefni líka málið um stafrænar smiðjur, sem er tilbúið. Það er komið nefndarálit, það er engin ástæða fyrir því að það geti (Forseti hringir.) ekki verið á dagskrá í dag.