148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

frumvarp um veiðigjöld.

[14:04]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Það er að frétta af fundarstjórn forseta að það er ekkert að frétta af fundarstjórn forseta. Engar breytingar verða gerðar á dagskrá. Veiðigjaldafrumvarpið, sem færa á útgerðinni fúlgur fjár umfram aðra aðframkomna hópa, á að fara í flýtimeðferð þvert á samkomulag um meðferð þingmála á þessu þingi í bullandi ósætti milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég get ekki annað en mótmælt harðlega þessum þvermóðskuhætti, þessum algjöra skorti á samstarfsvilja og sáttamiðlun af hálfu forseta. Þetta er ekki í lagi, þetta er ekki líklegt til árangurs nú þegar okkur langar að ljúka störfum hér fyrir sumarið. Þetta er ekki líklegt til að verða til þess að við höfum nokkurn áhuga á að komast að nokkru samkomulagi þar sem ekki virðist vera neinn vilji til að virða það yfir höfuð. Hvernig eigum við að ganga til samkomulags við stjórnina og forseta vorn ef við getum ekki treyst því að hann standi við gefin loforð?

Ég vona að forseta snúist hugur í þessari eindregnu og óbilgjörnu afstöðu sinni og hvet hann til að taka málið af dagskrá strax.