148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

frumvarp um veiðigjöld.

[14:08]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það hefur komið í ljós að forgangsmál þessarar ríkisstjórnar er að lækka veiðigjöldin. Það er svo mikið forgangsmál að stjórnarflokkunum og forseta finnst ekki skipta máli að reyna að halda frið í þinginu síðustu dagana fyrir sumarfrí, jafnvel þó að önnur stór mál bíði. Að lækka veiðigjöld hjá útgerðinni er forgangsmál ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Þannig er að það er verið að leggja á veiðigjöld tvö ár aftur í tímann. Fyrir tveimur árum skilaði útgerðin góðum hagnaði. Einhverjir þeirra freistuðust til að greiða sér út góðan arð þótt þeir vissu að veiðigjöldin núna yrðu miðuð við stöðuna fyrir tveimur árum. Og stjórnarþingmenn ætla núna að hlaupa undir bagga með þeim svo að þeir geti (Forseti hringir.) skilað sér einhverjum arði á þessu ári líka en þurfi ekki að borga fullt gjald í ríkissjóð. Það er hneyksli, herra forseti, að þetta skuli vera forgangsmál ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.