148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

frumvarp um veiðigjöld.

[14:13]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég skil ekki fyrir mitt litla líf hvers vegna við endum alltaf nákvæmlega í þeirri stöðu ár eftir ár, og jafnvel í lok hvers árshluta, að ríkisstjórnir geti ekki komið snemma fram með sín mál, unnið þau eðlilega í sátt og bara verið heiðarlegar með hlutina.

Nú stöndum við frammi fyrir því að eitt aðalmarkmið ríkisstjórnarinnar virðist vera að auka arðgreiðslugetu stórútgerðanna á kostnað allra annarra markmiða, þó eru þau ansi mörg sem hafa komið hér fram. Einhvern veginn er okkur gert að segja já og amen og samþykkja málið með engum fyrirvara og engri umræðu, ekki skynsamlegri umræðu alla vega, það er ekki hægt. Gerð var tilraun til skynsamlegrar umræðu í atvinnuveganefnd í gær. Það gekk ekki mjög vel vegna þess að það lá á að rífa málið út.

Nei, herra forseti. Við eigum að vera hafin yfir þessi vinnubrögð. Ég hef heimsótt ansi mörg þing á síðasta ári og ég hef alltaf spurt: Hvernig leysið þið úr ágreiningi? (Forseti hringir.) Það hefur enginn andvarpað á þann hátt sem þingmenn hér andvarpa þegar þeir eru spurðir að þessu.