148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

frumvarp um veiðigjöld.

[14:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér er mikið kallað á þingmenn Vinstri grænna. Ég held að það sé kannski af því að ekki er búist við miklu af hinum tveimur flokkunum, svona samviskulega séð alla vega. En mér telst til að hérna hafi átta mál verið flutt af nefndum. Það eru mál um ársreikningagerð, landhelgi, loftslagsmál, meðferð sakamála, stjórn fiskveiða, sveitarstjórnarlög og núna veiðigjald. Maður hefur heyrt af öðru máli sem nefnd á að koma og redda sem ríkisstjórnarmáli. Það er dálítið slæmt að einhver nefnd sé að reyna að redda einhverju ríkisstjórnarmáli upp á einhver formlegheit í gegn sem ríkisstjórnin er of sein með að fara í gegnum þingið.

Í heildina litið lítur þetta dálítið undarlega út. Þetta virðist allt vera gert til þess að forðast umræðu. Hér er mikið af fyrstuumræðumálum hrúgað inn á þing, þau eru send í nefnd og svo eru þau ekki afgreidd úr nefnd fyrr en á allra síðustu dögunum, sem þýðir að það er enginn tími til þess að fara í alvöruumræðuna, sem er 2. umr., um öll málin, um risastóru málin, um fjármálaáætlun, um GDPR o.s.frv. Risastór mál. Það á ekki að vera tími til að ræða þau. Það á bara að semja, (Forseti hringir.) rumpa þeim af, ekki tala neitt um málin. Alþingi fær ekkert að segja. Svo erum við endurtekið alltaf að leiðrétta lög aftur og aftur og aftur (Forseti hringir.) fyrir milljarða á síðasta ári.