148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

frumvarp um veiðigjöld.

[14:25]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hæstv. ríkisstjórn þorir ekki að koma með frumvarp inn í þingið um lækkun veiðigjalda. Er það rétt fullyrðing? Eða er það þannig að við ríkisstjórnarborðið sé ósætti um frumvarp um lækkun veiðigjalda og þess vegna kemur ríkisstjórnin sjálf ekki með frumvarpið inn í þingið? Er það rétt? Er það rétt að ekki sé eining í öllum þingflokkum stjórnarinnar og þess vegna ekki hægt að fara með lækkun veiðigjalda í gegnum ríkisstjórn og eðlilega leið í gegnum þingflokka og síðan inn í þingið? Er það þess vegna sem stjórnarmeirihlutinn þarf að bera fyrir sig þingmenn í atvinnuveganefnd? Hvað er rétt í þessu? Við vitum það ekki, en eitt er víst að það að meiri hluti (Forseti hringir.) nefndar eigi forgang inn á dagskrá þingsins hefur aldrei verið neitt samkomulag um. Annaðhvort er nefndin öll (Forseti hringir.) einhuga um að fara með málið í 1. umr., eða málið er þingmannamál og fer í númeraröð eða í samkomulag á milli þingflokka.