148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

frumvarp um veiðigjöld.

[14:30]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Þetta er afar athyglisverð umræða um það hvernig störfin á Alþingi eru þessa dagana. Við ræðum hér á fyrsta þingvetri ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur hvernig við ætlum að forgangsraða mikilvægustu málunum sem þessi nýja ríkisstjórn ætlar að koma í gegnum þingið. Hér á lokametrunum hendir ríkisstjórnin, í skjóli meiri hluta atvinnuveganefndar með formanninn, hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, í broddi fylkingar, inn þvílíkri sprengju í algjörri andstöðu við alla fyrri samninga sem gerðir hafa verið að annað eins hefur ekki sést. Maður áttar sig engan veginn á því hvernig ríkisstjórninni dettur í hug (Forseti hringir.) að beita forseta Alþingis fyrir sig með þessum hætti og ýta þannig til hliðar mörgum öðrum málum sem skipta mjög miklu máli að komist í gegnum þingið. (Forseti hringir.) Eru þetta sómasamleg vinnubrögð, herra forseti?