148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

frumvarp um veiðigjöld.

[14:34]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Það er nú gjarnan þannig að þegar upp kemur ágreiningur og staða sem virðist óviðráðanleg tala menn gjarnan um að það sé krísa. Við krísu bregðast menn þá með krísustjórnun, þ.e. menn taka málin föstum tökum og reyna að greiða úr þeim vanda sem að steðjar, reyna að koma í veg fyrir eða draga úr þeim skaða sem er að verða eða er fyrirsjáanlegur. Menn reyna að draga úr þeim álitshnekki sem menn geta orðið fyrir, menn reyna að draga úr þeim orðsporsskaða sem við blasir. Þetta blasir allt við okkur núna.

Ég vil hvetja hæstv. forseta til að hefja nú þegar markvissa krísustjórnun í þessu máli og reyna að færa þetta (Forseti hringir.) til betri vegar áður en verr fer.