148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

frumvarp um veiðigjöld.

[14:43]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Mér er meinilla við óheiðarleika og mér er meinilla við ósannindi og mér er meinilla við það þegar ég og fólk í kringum mig er svikið. En í tilfellum af þessu tagi veltir maður því fyrir sér hvaðan svikin koma. Í þessu tilfelli, með þetta tiltekna frumvarp, er eðlilegt að greint sé frá því að ekki er um að ræða frumvarp frá atvinnuveganefnd, sem var þróað þar, heldur kom það frá ráðuneyti hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Kristjáns Þórs Júlíussonar. Hann hefur ekki sést hér mjög oft undanfarna mánuði. Það er mjög áhugavert að skoða feril hans sem ráðherra. Frá honum hafa komið nákvæmlega sjö frumvörp á hverju einasta þingi sem hann hefur verið ráðherra, nákvæmlega tvær þingsályktunartillögur. Það er nánast eins og hann sé að reyna að halda ákveðnu formi. Þegar það form hentar ekki, vegna þess að einhverra hluta vegna þarf ríkisstjórnin að skeyta einhverju við, bæta einhverju inn sem hentar illa, þá á að reyna að troða því í gegnum (Forseti hringir.) nefnd.

Þetta er vandamál vegna þess að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á að sinna þessum (Forseti hringir.) málum. Hann á að bera ábyrgð á þessum málum og það á ekki að skipta máli hversu mörg mál hann hefur lagt fram. (Forseti hringir.) Hann á að vinna sína vinnu og bera pólitíska ábyrgð á hlutunum sjálfur í stað þess að reyna að láta aðra moka skítinn eftir sig.