148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

frumvarp um veiðigjöld.

[14:53]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég vil nefna að forseti sagði það einmitt í ræðu 9. maí að ríkar hefðir giltu um margt sem hér færi fram, óskrifaðar reglur sem gjarnan mætti halda í heiðri. Þess vegna spurði ég hvaða óskrifuðu reglur það væru, til þess að halda því til haga.

Mig langar að vísa í önnur orð sem hafa fallið í þessum ræðustól, það er „að kyngja ælunni“. Mig langar að spyrja hvaða þingmenn ríkisstjórnarflokkanna styðja þetta mál, samkvæmt eigin sannfæringu, miðað við stjórnarskrá, án þess að kyngja ælunni? Þá hef ég heyrt þá afsökun að það sé vegna byggðasjónarmiða að lækka þurfi veiðigjöldin. En hvenær hefur kvótakerfið verið gott fyrir byggðir landsins? Ég spyr í alvörunni. Á þessum samviskuforsendum, með þeim rökum að byggðasjónarmið eiga ekkert við hvað þetta kerfi varðar, spyr ég: Hvaða þingmenn ríkisstjórnarflokkanna styðja frumvarpið?