148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

frumvarp um veiðigjöld.

[14:56]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Hér á að þvinga máli á dagskrá og svo líklegast í gegnum þingið í bullandi ósætti í krafti meiri hlutans. Ég velti því fyrir mér hvernig þetta verður með stjórnarmálin. Við erum líka með mörg stjórnarmál sem eru í bullandi ósætti sem á að fara að afgreiða úr nefnd. Er það líka hugsunin að þvinga þau í gegn í krafti meiri hlutans? Er það sú samvinna sem er búið að boða? Ég man eftir því, þegar við vorum í svipaðri stöðu hvað varðar fyrri ríkisstjórn og fyrri forseta á seinustu metrum þingsins, að þau mál sem voru í bullandi ósætti voru einfaldlega tekin af dagskrá. Þóttu mér það góð vinnubrögð. Mér líst ekkert á blikuna hvað þetta mál varðar. Ég get ekki séð annað en að ríkisstjórnin hafi verið mynduð í kringum það að standa vörð um gömul vinnubrögð. Ekki sé ég að verið sé að boða ný vinnubrögð í þessu máli.