148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

tilkynning.

[15:21]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Trúverðugleiki meiri hlutans á þinginu er búinn að rýrast allmikið. Nú er hætt við að trúverðugleiki forseta þingsins rýrist líka töluvert, að reyna að nálgast þetta dagskrármál á þennan hátt og fá okkur til að samþykkja það núna að vera fram á kvöld til þess að geta rætt mál sem er eingöngu komið fram í ágreiningi. Mig munar ekkert um að vera hérna fram á kvöld, það er svo sem ekki vandamálið. En ég væri til í að gera það af góðri ástæðu. Ég hefði alveg verið til í að vinna fram á kvöld sl. mánudag þegar ekkert var á dagskrá.

Það er ekki vandamálið að vinna. Vandamálið er að maður verður að vinna að einhverju markvissu, einhverju sem er skynsemi í. Það er engin skynsemi í því að koma fram með svona frumvarp til þess að spilla fyrir allri umræðu á þinginu á síðustu stundu þegar það er fullt af öðrum miklu skynsamlegri hlutum sem við gætum verið að gera. Ég get ekki trúað því að forseti Alþingis ætli virkilega að reyna að fá okkur til að fara þessa leið í málinu í staðinn fyrir að taka málið af dagskrá og eiga samtal við þingflokksformenn um hvernig við getum haldið áfram í samvinnu og endurbyggt það traust sem rýrst hefur í dag.