148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

lengd þingfundar.

[16:27]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil gera grein fyrir atkvæði mínu. Hér er verið að biðja um lengdan þingfund til þess að ræða mál sem skutlað var hér inn í bullandi ágreiningi. Það er auðvitað þannig þegar nálgast þinglok að þingmenn geta búist við kvöldfundum. Oftast er það gert í samkomulagi og óþarfi að greiða um það atkvæði. Núna er annað uppi hjá hæstv. ríkisstjórn sem talaði um breytt og betri vinnubrögð. Auðvitað hefur það oft komið fyrir, eins og rifjað hefur verið upp í dag, að kastað hefur verið inn sprengju rétt fyrir þinglok, en það átti ekki að gerast hjá hæstv. ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sem hefur það í sínum titli að efla þingið og auka traust á stjórnmálum. Vinnubrögðin sem við höfum horft upp á í dag hjá stjórnarmeirihlutanum eru ekki (Forseti hringir.) til þess fallin að auka virðingu þingsins eða traust á Alþingi. Ég segi nei.