148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

um fundarstjórn.

[17:17]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það er kannski fínt að ég komi strax á hæla hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés því hann virðist hafa misskilið hvað það var nákvæmlega sem við höfum verið að biðja um hér í allan dag. Við vorum ekki endilega að biðja um að þetta mál yrði tekið af dagskrá heldur að það yrði samráð, eðlilegt samráð, við minni hlutann um það hvernig málum yrði hagað. Það samráð hefur ekki átt sér stað. Það var ýmsu fögru lofað fyrir þinghlé og það er búið að svíkja það í allar mögulegar áttir. Í rauninni er ein ástæða þess að við höfum náð einhverjum árangri í dag með því að fella þessa afleitu tillögu um að taka málið á dagskrá sú að einhverjum frábærum snillingi datt í hug að kannski væri ágætt og nauðsynlegt að hafa aðeins rýmri meiri hluta fyrir ákveðnar atkvæðagreiðslur, einmitt til að sporna við svona misbeitingu valds. Þetta segir mér að við þurfum miklu fleiri (Forseti hringir.) ákvæði í þingsköpum þar sem þarf þrjá fimmtu hluta atkvæða eða jafnvel tvo þriðju til að hlutir fari í gegn.