148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

612. mál
[17:48]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hálfandstyggilegt að sitja undir skömmum frá hæstv. dómsmálaráðherra fyrir það eitt að hafa verið að vinna vinnuna mína á Alþingi. Ég verð að segja að sú umræða sem átti sér stað í þingsal um daginn vegna frumvarps hæstv. dómsmálaráðherra til heildarlaga um persónuvernd sem eru meingölluð, var algerlega nauðsynleg. Ef hæstv. dómsmálaráðherra ætlar að fara í gegn með slíkt frumvarp um heildarlög og innleiða þannig þessa reglugerð, sem er mjög brýn og mikilvæg en um leið mjög umfangsmikil og íþyngjandi, með einhvers konar handarbaksvinnubrögðum sem flækja meira en þau leysa, er það engum til gagns. Slík innleiðing á þessu mikilvæga máli verður að vera vönduð. Það var það sem hér var rætt.

Þingsályktunartillagan sem nú er rædd er auðvitað góðra gjalda verð en maður veltir fyrir sér hvers vegna dómsmálaráðherra leggur lykkju á leið sína í þessari umræðu til að hnýta í þingmenn þegar á það var bent að frumvarpið væri ekki nógu vel unnið í stað þess að reyna að útskýra fyrir þingheimi um hvað málið sjálft snýst. (Forseti hringir.) Það er þingmanninum sem hér stendur algerlega óskiljanlegt.