148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

612. mál
[17:53]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við komumst ekki hjá því hér á Alþingi og í þessum sal að ræða innihald þessarar þingsályktunartillögu. Við getum ekki skautað bara alveg yfir það vegna þess að einhvern tíma í fyrndinni hafi málið fengið einhverja umfjöllun á Alþingi. Þetta mál er lagt fyrir Alþingi núna. Það er hér og nú á Alþingi. Við erum að ræða það í þingsal núna, burt séð frá því hvað hefur átt sér stað í nefndum á einhverjum öðrum tíma. Ég átta mig eiginlega engan veginn á því af hverju hæstv. dómsmálaráðherra telur ekki þörf á að þessi mál fái vandaða umfjöllun, hvort tveggja þessi þingsályktunartillaga sem hér er til umræðu og auðvitað frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra sem ég get ekki tekið undir að sé bara í einu og öllu eins og umrædd reglugerð. Þar eru fjölmargar breytingar. Þetta eru svo miklir hagsmunir og líka mjög íþyngjandi atriði þarna. Það verður að vanda sig. Það er það eina sem ég er að fara fram á, þ.e. að við stöndum ekki uppi hér í haust með einhvern bastarð sem þarf að fara að leiðrétta í hverjum einasta mánuði næstu misseri, eins og t.d. lög um meðferð sakamála sem eru að fá enn eina breytinguna núna. Sem er svo rosaleg að það meira að segja gleymdist að tala um áfrýjun í Landsrétt og er talað um áfrýjun í Hæstarétt. Það eru nokkur lagaákvæði sem þarf (Forseti hringir.) að leiðrétta. Mér finnst þetta ekki dæmi um vönduð vinnubrögð.