148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

612. mál
[17:58]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka forseta fyrir þá bilgirni. Það er ágæt hefð þegar mælt er fyrir málum að tíminn fari í að mæla fyrir málinu en ekki að væla yfir því hvað stjórnarandstaðan sé leiðinleg. Þá hefði kannski gefist meira ráðrúm til að klára framsögu málsins.

Vandinn við 1. umr. frumvarpsins var ekki skortur á skilningi á samspili þingsályktunartillögunnar og frumvarpsins eða meðferð EES-mála almennt heldur að enginn hafði haft tíma til að lesa frumvarpið þar sem það kom fram allt of seint og var tekið á dagskrá án þess að fólk hefði haft tíma til að komast í gegnum þessar 147 blaðsíður. Ég býst við að klára þær um helgina. Það hafði ekki neitt með einhvern málþófsvilja eða eitthvað þannig að gera, þvert á móti, ég og aðrir tókum margsinnis fram að það væri nauðsynlegt að málið fengi hraða en góða meðferð á þinginu.

Það vill þannig til að ég er búinn að lesa yfir þingsályktunartillöguna. Mér finnst hún bara fín. Ég hef ekkert út á hana að setja. En nú vill svo til að stjórnarflokkarnir allir hafa hver í sínu lagi í gegnum tíðina ítrekað talað mjög hart gegn því að framselja vald til Evrópusambandsins. Þeir hafa iðulega borið fyrir sig að það séu einhver stjórnskipuleg vafaatriði um hvort það megi yfir höfuð framselja vald, þrátt fyrir að EES-samningurinn sé til. Nú er ég meðvitaður um að lausnin sem fékkst snýst um að valdaframsalið snýr bara að ákvörðunarvaldi persónuverndarráðs ESB gegn ríkinu en hvorki gegn almenningi né fyrirtækjum og að prófessor úti í bæ hafi gefið því grænt ljós. En þetta er engu að síður valdaframsal af tegund sem þessir flokkar hafa áður talað gegn.

Því langar mig til að spyrja: Má líta á þetta sem breytingu á viðhorfi ríkisstjórnarinnar til valdaframsals til Evrópusambandsins?