148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

612. mál
[18:02]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er reyndar ágætissvar. Að vísu rekur mig minni til þess að sambærilegar yfirlýsingar hafi verið gefnar út áður um það að þetta sé ekki fordæmisgefandi. Kannski er þetta ekki fordæmisgefandi en það kemur samt fyrir aftur og aftur að valdaframsal fari fram með þessum hætti. Einmitt þrátt fyrir að yfirleitt séu stjórnarflokkar við völd sem hafa ítrekað lýst sig andsnúna þessu. Það verður að viðurkennast að mér finnst þetta eiginlega frekar fyndið.

Þetta angrar mig ekki neitt og ég hef útskýrt áður að ég lít svo á að allt það valdaframsal sem átti sér stað við upptöku EES-samningsins dugi til að réttlæta frekara valdaframsal. Ef fólk er ósátt við það eigum við að sjálfsögðu að taka upp nýja stjórnarskrá sem tekur á þessum málum af fullri alvöru í stað þess að við séum alltaf að rífast um þessi smáatriði.

Engu að síður er áhugavert að kafa aðeins dýpra í þetta. Samspilið milli persónuverndarráðs Evrópusambandsins og síðan Persónuverndar sem okkar stofnunar mun snúast að miklu leyti um það hversu vel Persónuvernd tekst að samlagast þessu „one-stop shop mechanism“, með leyfi forseta, sem sagt afgreiðslu á einum stað, sem er gert ráð fyrir í persónuverndartilskipuninni. Augljóslega er það ekki afgreiðsla á einum stað ef sumir leita til Persónuverndar og fá úr sínum málum skorið þar en aðrir þurfa að fá málum sínum sparkað upp til persónuverndarráðsins. Gæti ráðherra hugsanlega útskýrt fyrir mér aðeins betur hvernig þetta samspil er hugsað upp á framtíðina að gera? Kannski ekki síst í ljósi þess að verið er að reyna að viðhalda ákveðnu samræmi í því hvernig þessu er beitt í hinum ýmsu Evrópulöndum.