148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

612. mál
[18:21]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég get ekki sagt að ég hafi séð eitthvað þannig, enda virðist þetta vera ágætlega unnið frumvarp. En ég segi það með þeim fyrirvara að ég er rétt búinn að lesa nokkrar greinar og svo eitthvað af greinargerðinni. Ég býst við að ég sé kominn svona 40 blaðsíður inn í frumvarpið, það er 147 blaðsíður og mikið sem þarf að skoða samhliða því að lesa það, t.d. hvernig þetta var í meðferð Evrópuþingsins, hvernig athugasemdir komu fram frá hagsmunaaðilum. Ég hef mikið fylgst með eða borið saman við umfjöllun EDRI um þetta mál, sem eru Evrópusamtökin European Digital Rights. Svo hef ég að sjálfsögðu líka lesið blaðagreinar sem hafa komið út, því að það er lán í töluvert miklu óláni að við fáum svolítið að sjá hverjar afleiðingarnar eru af þessu vegna þess að þetta tók gildi í Evrópu síðastliðinn föstudag. Það er komin tæplega viku reynsla á reglugerðina.

Ég er ekki enn þá kominn í þá stöðu að ég treysti mér til að benda á eitthvert eitt atriði. Ég hef bent á nokkur atriði: Rafrænu vöktunina, vanskilaskrána, bannskrá Þjóðskrár Íslands, dagsektirnar o.fl., þar sem útfæra þarf hlutina öðruvísi og fara séríslenska leið. Gott og vel. En það verður að vera nákvæm yfirferð þingsins alls

Eitt sem ég nefndi í töluvert löngu máli um daginn og veldur mér enn þá verulegum áhyggjum eru áhrifin á gagnagrunna sem eru ekki reknir af opinberum aðilum en gegna opinberu hlutverki, t.d. grunnrekstri internetsins. Þá nefndi ég WHOIS- gagnagrunninn (Forseti hringir.) sem er ótrúlega mikilvægur. Ástandið og aðstæðurnar hjá þeim gagnagrunni eru atriði sem ég mun hafa áhyggjur af þangað til einhver sannfærir mig um að hafa þær ekki.