148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

612. mál
[18:23]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að hafa farið yfir þessa þingsályktunartillögu um þetta mjög svo mikilvæga mál, þessa reglugerð um persónuvernd sem var samþykkt í Evrópu fyrir margt löngu, fyrir tveimur árum eða svo. Við erum auðvitað að ræða þessa tilteknu þingsályktunartillögu, og ég mun svo sannarlega gera það sem ég get til að greiða henni leið, en við höfum líka verið að velta fyrir okkur hér í dag og ræða aðferð okkar við innleiðingu á þessari tilteknu reglugerð, hvernig við komum henni inn hjá okkur.

Ég hef áður komið inn á það í máli mínu að ég tel að betur færi á að við myndum hreinlega samþykkja þessa þingsályktunartillögu og senda þannig skýr skilaboð til Evrópu um að við munum greiða þessu máli götu hér á Alþingi Íslendinga til að það liggi ljóst fyrir, á fundinum í júlí hjá sameiginlegu EES-nefndinni, að það sé okkar vilji. Frumvarpið kom auðvitað allt of seint vegna þess að ákvörðun var tekin um það í dómsmálaráðuneyti að skipa ekki nefnd sem átti að fara í þessa vinnu fyrr en í nóvember sl. Þrátt fyrir að það hafi legið fyrir í allan þennan tíma, í tvö ár, að við þyrftum að vera í þessari vinnu, var nefndin sem fór í að útbúa frumvarp svo við gætum innleitt þetta mál í íslenskan rétt seint á ferð. Við verðum aðeins að benda á að það frumvarp sem lagt var hér fram fyrir tveimur dögum er þess eðlis, og það var gagnrýni sem meðal annars kom fram í samráðsgáttinni, að í tilteknum ákvæðum þarf sá sem ætlar að lesa og skilja það sem þar á sér stað að vera með þrjú skjöl opin á borðinu fyrir framan sig. Það er ekki vönduð lagasetning.

Innihald þingsályktunartillögunnar er alveg ljóst, jafnvel þeim óreynda þingmanni sem hér stendur. Hér er verið að tala um að Alþingi veiti samþykki fyrir því að við munum styðja framgang þessarar reglugerðar og ekki setja okkur upp á móti henni sem slíkri. En það er þessi flækjufótur sem verður á leiðinni. Við ákveðum að fara aðra leið en önnur EFTA-ríki. Við gerum þetta ekki eins og Noregur, ætlum ekki að gera þetta eins og aðrir, heldur einhvern veginn að endurskrifa þetta og búa til aðeins aðrar reglur fyrir okkur.

Það þarf að styðja framgang þessarar þingsályktunartillögu til að koma ekki öllu í uppnám. Evrópuríkin þurfa að fá skýr skilaboð frá okkur. En við erum samt í þeirri stöðu að fjöldinn allur af reglugerðum hefur verið samþykktur í Evrópu sem hefur ekkert verið tekinn inn í íslensk lög. Sem dæmi kom inn í EES-samninginn reglugerð í febrúar sl. sem var samþykkt í Evrópusambandinu árið 2014. Sú reglugerð hefur ekkert verið innleidd hér á landi. Það er auðvitað ekkert einsdæmi, við erum með fullt af svona málum.

Það að ætla að fara í svo óvandaða vinnu sem við höfum rætt hér, varðandi innleiðinguna, er bara ekki í boði. Það þarf að gera þetta betur. Það þarf að vanda sig, eins og þingmaðurinn hefur áður sagt.

Aðeins varðandi efnið. Það er auðvitað um að ræða reglur um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga, reglur er varða frjálsa miðlun upplýsinga. Þetta er grundvallarréttur einstaklinga og á þeim tímum sem við lifum í dag er þetta algert lykilatriði. Við sjáum hvernig málin standa hjá okkur. Til dæmis veltir maður fyrir sér hvers vegna verið sé að rýra rétt íslenskra barna meira en þeirra sem eru frá Evrópusambandslöndunum. Af hverju ætlum við að hafa aðrar reglur fyrir íslensk börn, þegar kemur að samþykki varðandi t.d. dreifingu persónuupplýsinga á samfélagsmiðlum? Af hverju ætlum við að láta 13 ára gamla unglinga á Íslandi samþykkja eitthvað sem þeir mögulega hafa engan skilning á? Ég velti fyrir mér hvort það sé eitthvað sem hefur verið ígrundað nægilega vel. Hvers vegna má það ekki bara vera þannig að forsjáraðilar þurfi að veita þetta samþykki?

Við efumst ekkert um að persónuverndin, verndun persónuupplýsinga, er gríðarlega mikilvæg. Það er algert lykilatriði. Sem betur fer hafa íslensk stjórnvöld mörg hver, íslenskar stofnanir og stórfyrirtæki, fyrir löngu hafið undirbúning vegna þessarar reglugerðar þó að íslenskir ráðamenn eða ríkisstjórn hafi valið að koma innleiðingarþættinum svona seint hér inn á þingið.

Ég ætla ekki að hafa frekari orð um málið í bili. Ég fagna því að þessi þingsályktunartillaga er komin hingað inn og hlakka til að sjá hvernig um hana verður fjallað.