148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

612. mál
[18:34]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir þær spurningar sem hún ber hér fram. Hún spyr hvort þingmaðurinn hafi kynnt sér hvaða ríki það séu sem hafi breytt hjá sér tilteknu ákvæði er varðar samþykki barna. Þingmanninum er kunnugt um að einhver ríki hafi breytt ákvæðinu, en ég efast um að hæstv. ráðherra sé að óska eftir því að þingmaðurinn standi hér og þylji upp hvaða tilteknu ríki það séu.

Það er engu að síður þannig að reglugerðin segir eitt og íslensk stjórnvöld taka ákvörðun um að breyta ákvæði reglugerðarinnar á einhvern tiltekinn hátt. Hvaða máli skiptir hvort einhver tiltekin ríki velji að gera eitthvað annað? Ég veit ekki alveg hvað það kemur málinu við. Ég hefði haldið að þetta ætti mögulega að vera nákvæmlega það sem er til umræðu þegar við víkjum frá því sem hin evrópska reglugerð segir til um. Það er nákvæmlega það sem við eigum að vera að velta fyrir okkur hér, hvers vegna þessi leið er farin en ekki önnur.

Hæstv. ráðherra sagði einnig að það væri eðlismunur á þessu og öðru og hvernig þingmaðurinn hefði séð fyrir sér að þetta hefði mátt gera einhvern veginn öðruvísi. Til dæmis hefði þingmaðurinn talið vænlegast til árangurs að nefndin sem falið var að fara í þá vinnu að útbúa þetta frumvarp, hefði tekið til starfa þegar ljóst var að við þyrftum að fara í innleiðingu á þessari reglugerð, en ekki korteri áður en hún tók gildi. Það lá alveg fyrir (Forseti hringir.) að reglugerðin tæki gildi 25. maí. Það lá fyrir. Hvers vegna að hefja þá störf við samningu frumvarpsins svona seint?