148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

lokafjárlög 2016.

49. mál
[20:09]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Ég vil byrja á að segja varðandi vinnulagið að þetta eru auðvitað síðustu lokafjárlögin sem við leggjum fram með þessum hætti. Það var kannski ein af ástæðunum fyrir því, eins og hv. þingmaður nefndi líka, að það er svo langt um liðið og við gerum að sjálfsögðu athugasemdir við það. Það er meðal annars það sem er niðurstaða nefndarinnar, og kemur fram hér í nefndarálitinu, þetta óhagræði sem fellst í því að breyta einhverju svona langt aftur eins og hér er um að ræða. Við höfum talað um að endurskoða verklag og reglur um ráðstöfun ársloka í nefndum. Við höfum ekki farið ítarlega yfir það. Og eins og ég rakti, í ræðu minni áðan, þurfum við að átta okkur á því hvar í ferlinu við getum gripið inn í. Mér finnst það skipta máli. Við höfum getað haft áhrif fram til þessa á lokafjárlög. Núna fáum við bara tilkynningu um niðurstöðu samkvæmt nýjum lögum um opinber fjármál.

Við höfum verið að tala um að valdið færist frá þingi yfir til framkvæmdarvalds, eins og mörg okkar hafa hér haft uppi mörg orð um, þar á meðal sú sem hér stendur. Þá er vont að þetta sé svo seint komið fram. En hvernig getum við dregið þetta nær? Ríkisendurskoðun sagði hreinlega að líklega yrði ríkisreikningur seinna á ferð en upphaflega var áætlað, því miður. En ég vona svo sannarlega að þetta sé ferli sem kemur til með að verða nær okkur í rauntíma. Við gerðum hér samkomulag, eins og hv. þingmaður man, þar sem við felldum niður á tilteknum stofnunum þannig að ekki þyrfti að koma til skerðingar á þjónustu. Auðvitað var það sértæk aðgerð, sú halaklipping sem þar átti sér stað, og eitthvað sem maður vill ekki láta gerast, heldur komi til fjárveitingar, eins og hér hefur verið sagt, sem duga til.