148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

brottnám líffæra.

22. mál
[22:05]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um breytingu á lögum um brottnám líffæra, eða nefndarálit með breytingartillögu. Ég vil þakka flutningsmanni nefndarálitsins, hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur, kærlega fyrir ágæta yfirferð og þeim sem hafa tekið til máls hér. Það er búið að fara ítarlega og vel yfir þetta mál sem nú er að koma fyrir þingið í þriðja sinn og hefur fengið hreint ágæta umfjöllun. Má kannski segja að það hafi verið að þroskast hér í þennan tíma í þau skipti sem það hefur komið fyrir þingið. Og það er gott.

Eins vil ég þakka nefndinni fyrir ítarlega og góða vinnu og skýra framsetningu. Við lestur þessa má sjá að umsagnaraðilar hafa allir verið jákvæðir og það er gott. Við höfum vissulega verið eftirbátar annarra þjóða á þessu sviði því að með því að ganga út frá ætlaðri neitun og fara yfir í ætlað samþykki hlýtur nálgunin við þessi mál öll að breytast. Við vitum að þegar kemur að því að nýta líffæri eða eitthvað úr líkama látins manns erum við í aðstæðum sem eru viðkvæmar og erfiðar og ekki í raun hægt að ætla fólki að taka erfiðar ákvarðanir á slíkum stundum.

Ég held að þessi breyting sem verður hvað varðar sjálfræði, að það sé tekið út, sé afskaplega mikilvægur þáttur í frumvarpinu. Vissulega eru börn og ungmenni líka mikilvægir gjafar þegar kemur að þessu.

Það að auka fræðslu og samtal og upplýsingar hlýtur að vera gott, að það fylgi þessu máli. Ég get því tekið undir orð hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar um það. Ég held að það gæti verið jákvætt ef við létum það fylgja með, upplýsingagjöf og jafnvel eitthvert átak í því að fólk skrái sig sem gefendur. Við höfum vissulega haft tækifæri til þess, margir hafa gert það, en það er eitthvað sem stoppar okkur í framkvæmdinni eða að koma í því í verk. Með því að hafa það skráð erum við kannski að taka erfiðar ákvarðanir frá aðstandendum á viðkvæmum stundum sem þá kjósa eða geta kosið að virða ákvörðun hins látna.

Þá held ég að það sé líka mjög jákvætt að skerpt sé á verklagsreglum um aðkomu heilbrigðisstarfsmanna í þessum málum eins og fram kemur í nefndarálitinu, þá sérstaklega varðandi samskipti við aðstandendur og upplýsingagjöf til þeirra. Ég held að það yrði málinu virkilega til bóta, af því að allt lýtur þetta að mannlegum samskiptum á viðkvæmum stundum og fólk þarf þjálfun og upplýsingu og leiðbeiningar í þessum efnum eins og flestu öðru.

Verði þetta að lögum, sem ég vona svo sannarlega, þá erum við að stíga skref sem flestar aðrar þjóðir og flestar þjóðir Evrópu hafa stigið. Ég held að það sé tímabært að við gerum það líka. Ég vona að okkur takist að afgreiða þetta mál hér á þessu þingi. Ég vil enn og aftur þakka nefndinni fyrir vel unnið starf, góða yfirferð og skýra framsetningu í þessu mikilvæga máli.