148. löggjafarþing — 67. fundur,  4. júní 2018.

almennar stjórnmálaumræður.

[19:56]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Um þessar mundir hefur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur starfað í hálft ár. Að baki ríkisstjórninni eru ólík stjórnmálaöfl sem greinir á í mikilvægum málum, en stjórnmálaflokkarnir eiga það sameiginlegt með almenningi að við erum ekki ávallt sammála um alla hluti, en þó verður okkur að takast að ná niðurstöðu og leiða mál til lykta á lýðræðislegan hátt. Þetta getur auðvitað tekið á. Við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði finnum vissulega fyrir því og það gera líka þingmenn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.

Ríkisstjórnarsamstarfið er óvenjulegt í sögulegu samhengi en ekki er þó fordæmalaust að stjórnmálaöfl sem spanna skalann frá vinstri til hægri standi að ríkisstjórnarsamstarfi, enda getur það gefist vel ef rétt er á málum haldið. Það var alveg ljóst eftir síðustu alþingiskosningar að almenningur vænti þess og gerði þá kröfu til kjörinna fulltrúa að þeir mynduðu starfhæfa ríkisstjórn sem kæmi til leiðar ýmsum mikilvægum og löngu tímabærum ráðstöfunum í þágu samfélagsins og stuðlaði að pólitískum stöðugleika. Ríkisstjórnarsamstarfið er svar flokkanna þriggja sem að því standa við þeirri kröfu.

Hvað varðar okkur félagana í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði sérstaklega viljum við hafa hönd í bagga með því hvernig gæðum sem samfélagið skapar er skipt og þar leggjum við sem endranær áherslu á að berjast gegn ójöfnuði en fyrir félagslegu réttlæti.

Í sáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er lýst áformum um verulega uppbyggingu innviða samfélagsins. Með því er átt við samgöngu- og tæknikerfi sem þjóna atvinnulífi og almenningi, velferðar-, mennta-, heilbrigðis- og réttarkerfi sem eiga það sameiginlegt að vera undirstaða efnahags- og félagslegs velfarnaðar, er almannaeign og krefst langtímafjárfestingar. Enn fremur fylgir ríkisstjórnin þeirri stefnu að auka jöfnuð og sjá til þess að landsmenn hafi aðgang að gæðum á borð við menntun og heilbrigðsþjónustu á jafnréttisgrundvelli.

Fyrstu fjárlög ríkisstjórnarinnar bera vott um eftirfylgni við þessa stefnu. Veitt var fé til að styrkja þjónustu sjúkrahúsanna og heilbrigðisþjónustunnar almennt. Niðurgreiðslur á tannlæknakostnaði aldraðra og öryrkja voru auknar og bætt var við framlög til háskóla og framhaldsskóla, svo dæmi séu tekin, og fjármálaáætlun til næstu fimm ára fylgir þessari stefnu eftir.

Áhersla er á nýsköpun í velferðarþjónustu og opinberum rekstri og afnám þaks á endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar sem ég tel að verði til þess að skjóta fleiri og styrkari stoðum undir íslenskt atvinnulíf. Þá verða háskólar og framhaldsskólar efldir til muna og sérstakt átak gert í samgöngumálum, auk þess sem myndarlega verður staðið að byggðamálum.

Fjármálaáætlun hefur vissulega mætt talsverðri gagnrýni. Sumum þykir hún ekki ganga nægilega langt og vilja sjá enn ríflegri úthlutanir til ýmissa málaflokka en þar er gert ráð fyrir. Öðrum þykir of mikið að gert. Við sem að málinu stöndum teljum að þrátt fyrir að útgjöld séu aukin verulega samræmist áætlunin í senn meðalhófi hvað varðar framkvæmdir hins opinbera og áformum um nauðsynlega uppbyggingu.

Góðir landsmenn. Ferskir vindar blása nú í verkalýðshreyfingunni. Forystufólk sumra stéttarfélaga innan ASÍ hefur farið hörðum orðum um þá sjálftöku sem virðist eiga sér stað hjá stjórnendum sumra félaga, bæði opinberra og almennra. Eðlilega svíður almenningi að horfa upp á stjórnendur hlutafélaga skammta sér launahækkanir þar sem um er að ræða risafjárhæðir fyrir hvern mánuð á sama tíma og talað er um ábyrgð launþega í að viðhalda efnahagslegum stöðugleika. Við hljótum að veita þessum ábendingum fulla athygli og bregðast við þeim og eitt af því er að leggja niður kjararáð eins og meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til.

Í samstarfi við verkalýðshreyfinguna þurfum við, ætlum og munum skoða samspil tekjuskatts og yfirfærslutekna með það markmið að finna fátæktargildrur sem þar kunna að leynast og eyða þeim. Markmiðið með þessum aðgerðum verður að bæta stöðu lágtekjuhópa og lægri millitekjuhópa.

Til að unnt sé að koma á og viðhalda efnahagslegum stöðugleika þarf að tryggja félagslegan stöðugleika. Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins hafa átt mánaðarlega fundi þar sem fjallað hefur verið um þessi málefni. Það er mikilvægt að talsambandið sé gott og stjórnvöld kunni að hlusta á fólk og grípa til aðgerða eins og kom í ljós þegar heilbrigðisráðherra stuðlaði á dögunum að lausn langvinnrar deilu ljósmæðra og samninganefndar ríkisins.

Við sem stöndum að baki ríkisstjórnarsamstarfinu heyrum stundum að lítið gangi undan ríkisstjórninni þar sem bið- og tafaleikir einkenni störf hennar og birtist m.a. í skipun fjölmargra nefnda og starfshópa um eitt og annað. Þetta tel ég ósanngjarnt. Vissulega hafa stjórnvöld skipað nefndir og starfshópa nú sem endranær en við verðum að huga að því að skammt er liðið síðan ríkisstjórnin hóf störf og þar sem hún hefur mjög mörg mikilvæg málefni á sínum verkefnalista er skynsamlegt að undirbúningurinn sé góður, enda ein meginforsenda þess að vel til takist við að leysa úr flóknum og viðamiklum málum í samstarfi við alla flokka á Alþingi og þá sem hlut eiga að máli.

Kæru landsmenn. Átta flokkar eiga nú sæti á þingi og gera þingstörfin litríkari og ekki er ástæða til annars en að fagna því. Vissulega getur reynst flóknara að ná sameiginlegri niðurstöðu þegar flokkarnir eru svona margir. Öfugt við það sem margir halda tekst oft að ná ágætu samkomulagi um afgreiðslu mála á Alþingi og dæmi um það er notendastýrð persónuleg aðstoð sem hér var afgreidd fyrir skömmu. Það fer nefnilega fram mikið og gott starf í nefndum þingsins þar sem mál eru rædd til niðurstöðu og oft í samkomulagi. En því miður tekst ekki alltaf svo vel til og þingstörf fara í uppnám eins og við sáum í síðustu viku þegar frumvarp um veiðigjald var afgreitt úr nefnd í ósætti, enda seint fram komið og risu um það miklar deilur í þingsalnum.

Ég tel að það séu einmitt svona deilur sem móta mesta þá mynd sem fólk hefur af störfunum á Alþingi. Vissulega er tekist á á Alþingi og við eigum að gera það, en langoftast eru málin leyst án þess að þingsalurinn verði vettvangur átaka. Það fer líka best á því og þótt stjórnmál snúist oft að einhverju leyti um að skiptast á skoðunum og takast á um stefnu og leiðir ber okkur að gera það á uppbyggilegan hátt.

Á vetrar- og vorþingi höfum við unnið að mikilvægum og flóknum málum, svo sem fjármálastefnu og fjármálaáætlun fyrir komandi ár. Stjórnvöld hafa útfært stefnu um aðgerðir í þeim málaflokkum sem fjallað er um í stjórnarsáttmála. Upphaf hvers kjörtímabils einkennist gjarnan af undirbúningi og því getum við búist við því þegar þing kemur saman í haust að þá muni liggja fyrir fjöldi mála til umfjöllunar.

Kæru landsmenn. Fram undan er bjartasti og hlýjasti tími ársins, tíminn þegar fólk tekur sér frí frá störfum, slakar á og nýtur samvista við sína nánustu og vonandi berum við öll gæfu til að njóta hans vel. Eftir aðeins nokkra daga hefst austur í Rússlandi heimsmeistarakeppni í knattspyrnu karla og í fyrsta sinn eigum við lið á þessu stórmóti. Það er sannarlega stórkostlegur árangur og líklega mun stór hluti landsmanna fylgjast með gengi karlalandsliðsins í sumar og auðvitað sameinumst við um og vonum að því vegni sem best.

Hvernig gat það gerst að svona afar fámenn þjóð sem við Íslendingar erum næði slíkum árangri? Gæti ekki verið að stóran hluta skýringarinnar sé að finna í viðhorfi knattspyrnumanna? Hver og einn þeirra vinnur að sameiginlegu markmiði og gerir sitt besta til að ná því. Við þingmenn ættum að gera þann hugsunarhátt að okkar og minnast þess að erindi okkar hingað er ekki fyrst og fremst að koma eigin sjónarmiðum á framfæri heldur að vinna að því sameiginlega markmiði að auka hagsæld og velsæld allra Íslendinga. — Gleðilegt sumar.