148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

samkeppnisstaða Íslands.

[10:36]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessari rannsókn eða mælingu, sem við getum kallað svo. Ég held að þarna sé margt sem við getum dregið lærdóm af.

Í fyrsta lagi tel ég — og það er ríkisstjórnin að gera — að við þurfum sem samfélag að leggja stóraukna áherslu á nýsköpun, rannsóknir og þróun. Hluti af því er ákvörðun mín um að skipa nefnd sem á að gera samantekt um það hvernig við ætlum að bregðast við fjórðu iðnbyltingunni, til að mynda þegar kemur að því hvaða áhrif hún muni hafa á framleiðni í ólíkum greinum — það er alveg ljóst að þau verða ólík á milli greina — hvaða áhrif hún muni hafa á vinnumarkaðinn og réttindi launafólks, hvaða áhrif hún muni hafa á löggjöfina og regluverkið sem við þurfum að sjálfsögðu að endurskoða. Ég tel gríðarlega mikilvægt að stjórnvöld taki afgerandi ákvarðanir um þetta. Og hluti af því er líka að fara í mótun nýsköpunarstefnu fyrir Ísland sem hefur verið ákveðið að gera undir forystu ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra með þátttöku allra flokka. Hluti af því er að efla háskólastigið. Hluti af því er að horfa til þess að afnema þak á endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar. Ég tel að það allt muni skila sér í aukinni samkeppnishæfni.

Hv. þingmaður nefnir gjaldmiðilinn. Það má til sanns vegar færa að hagsaga Íslands einkennist af miklum sveiflum. Meðal annars þess vegna skipaði síðasta ríkisstjórn nefnd um endurskoðun á fyrirkomulagi peningastefnu. Sú nefnd mun skila af sér í dag og kynna tillögur sínar um það hvernig styrkja megi ramma peningastefnunnar. Þegar við horfum til þess hvernig við getum rekið samfélagið erum við auðvitað að horfa til innviðanna og ríkisútgjaldanna sem hv. þingmaður nefndi. Við erum að horfa til þess hvernig unnt er að skapa sátt á vinnumarkaði, en ekki síður hvernig við getum skapað sterkara fyrirkomulag um peningastefnuna.

Ég held í stuttu máli að það sé mjög margt sem við getum gert betur á Íslandi þegar kemur að t.d. uppbyggingu atvinnulífs svo það verði fjölbreyttara. Við erum þegar að styrkja innviði og þess má sjá stað í fjármálaáætlun þar sem einmitt er verið að horfa á styrkingu innviða. Við þurfum að horfa til framtíðar og gera það á ólíkum sviðum. Þar þurfum við að (Forseti hringir.) taka forystu í því hvernig við ætlum að bregðast við þeim tæknibreytingum sem augljóslega munu verða.