148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

samkeppnisstaða Íslands.

[10:40]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ef ég aðeins held mig við fyrri fyrirspurn hv. þingmanns er ég ósammála því sem hann segir í síðari fyrirspurn um að fjármálaáætlunin endurspegli ekki sókn innviða. Það sést best á því hve hjartanlega ósammála stjórnarandstaðan er innbyrðis um hvort sóknin sé of mikil eða of lítil. Auðvitað er sókn í uppbyggingu innviða og það er horft sérstaklega til skólanna; eftir margra ára niðurskurð og kyrrstöðu er loksins verið að gefa í og sækja fram á þeim vettvangi. Það er verið að sækja fram þegar kemur að samgöngum og það er horft til breytinga á nýsköpunarkerfinu sem ég held að skipti verulegu máli. Ég sagði áðan og vil ítreka: Ef við erum að ræða um samkeppnishæfni landsins tel ég að það skipti mestu að atvinnulífið byggist upp á fjölbreyttari stoðum en sagan sýnir.

Sama má segja ef við viljum læra af sögunni, þegar kemur að peningastefnunni dugir ekki að benda eingöngu á gjaldmiðilinn heldur þurfum við að horfa til þess og meta það raunhæft hvort við sem samfélag og stjórnvöld á hverjum tíma höfum fylgt þeim leikreglum sem við höfum sett okkur þegar kemur að rekstri peningastefnunnar. (Forseti hringir.) Ég held að sagan sýni að svo hefur ekki alltaf verið.