148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

kjararáð.

630. mál
[15:42]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tvö atriði, annars vegar til að vera alveg viss um að það sé ekki launavísitalan og þá launavísitala opinberra starfsmanna sem kemur til með að ráða hækkuninni, og vera alveg viss um að það sé ekki skilningurinn að það væri málið, heldur einhverjar meðalhækkanir o.s.frv. en ekki launavísitalan.

Hins vegar langar mig aðeins til að fjalla um þessa breytingu, hvað hún þýðir. Vissulega hef ég haft áhyggjur af ákvörðunum og tilhögunum kjararáðs á undanförnum misserum og er hjartanlega sammála því að gera þurfi einhverjar breytingar þar. Þau hafa í úrskurðum sínum ekki verið að fylgja eftir almennri launaþróun og því um líku eins og komið hefur fram hér í ræðum áður. En núna, með þessari breytingu, er Alþingi í raun og veru aftur farið að ákveða laun þingmanna, því að við erum með þessari ákvörðun að segja til um hvernig laun þingmanna koma til með að breytast ef ekkert annað hefur verið gert 1. maí 2019. Þá breytast laun þingmanna samkvæmt því sem við segjum hérna.

Ég veit ekki endilega hvort það er afturför eða ekki. Þetta er ákveðið ábyrgðarmál, tvímælalaust. En þetta er líka ákveðið freistnivandamál sem hefur leitt Alþingi út á ákveðnar slæmar götur áður, t.d. í ákvörðun á eigin lífeyriskjörum. Mig langar því til að fjalla aðeins um þetta vandamál. Við erum með þessu aftur að stíga spor, alla vega í áttina að því, að Alþingi taki ákvarðanir um eigin laun.