148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

kjararáð.

630. mál
[15:44]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki alveg viss um að ég geti tekið undir með hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni þegar hann segir að með þessu séum við, sem sitjum hér í þingsal, að fara að hlutast aftur til um okkar laun. Nú er það þannig að gengið er út frá því annars vegar að lög um kjararáð falli úr gildi og það er gert í því trausti að við fáum til meðferðar frumvarp þar sem kveðið verði á um hvernig laun þeirra starfsstétta, ef svo má kalla, dómara og kjörinna fulltrúa meðal annars, verði ákvörðuð í framtíðinni og það verði gert með eins gegnsæjum hætti og hægt er að hugsa sér og þar er byggt á sameiginlegum tillögum nefndar sem aðilar vinnumarkaðarins tóku þátt í.

Þar er reglan tiltölulega einföld. Eins og segir: að miða skuli við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa ríkisstarfsmanna eins og það birtist í tölum Hagstofu Íslands fyrir næstliðið almanaksárs. Þetta skuli gert 1. apríl ár hvert og það verði fastsett í lögum að launin, launakjörin, breytist þá 1. maí ár hvert. Það liggur þá alltaf fyrir með hvaða hætti laun þessara aðila breytast.