148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

kjararáð.

630. mál
[15:50]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta frumvarp er að mörgu leyti gott og sér í lagi það að við erum þá loksins að fara að festa ákvarðanir um laun þingmanna inn í meðaltöl um hækkanir opinberra starfsmanna. Það er þá ekki eitthvert fyrirbæri sem heitir kjararáð sem getur tekið ólöglegar ákvarðanir, byggðar á sínum eigin vísitölum, sínum eigin hugmyndum um það og jafnvel ekki rökstutt þær eins og það á að gera lögum samkvæmt. Þetta er gott. Það er gott að verið er að leggja niður kjararáð. Það er gott að verið er að færa þetta inn í almenna launaþróun og horft til síðasta árs, sem þýðir að ráðamenn, eins og lögin um kjararáð áttu að virka, hækka ekki í launum nema landsmenn hafi gert það. Það er gott.

Það sem ég á eftir að skoða og vil biðja hv. þingmann og flutningsmann, formann efnahags- og viðskiptanefndar, að varpa ljósi á fyrir okkur er það hvers vegna þetta meðaltal reglulegra launa ríkisstarfsmanna er valið. Í gömlu lögunum um kjararáð er bara talað um almenna launaþróun; þá heyra allir þar undir. Hvers vegna er ákveðið að velja ríkisstarfsmenn, ef þingmaðurinn getur upplýst okkur um það?

Jafnframt spyr ég: Hvað þýðir þetta nákvæmlega? Er ráðherra að fara að taka ákvarðanir? Lög um kjararáð falla úr gildi 1. júlí, hvað gerist svo? Getur ráðherra verið að hækka fullt af hópum fram til 1. janúar 2019? Hver er þessi heimild ráðherrans, svo að við glöggvum okkur á henni, til að hækka laun sem kjararáð hefði annars gert?