148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

kjararáð.

630. mál
[15:52]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég vitna til þess að miða skuli við meðaltal vísitölu reglulegra launa ríkisstarfsmanna er það gert á grundvelli þeirra tillagna sem fyrir liggja og almenn samstaða hefur náðst um. Auðvitað getur hinn mælikvarðinn alveg verið í lagi. Meginmálið, og þar held ég að ég og hv. þm. Jón Þór Ólafsson séum sammála, er að við megum ekki búa til það kerfi hér við launaákvörðun æðstu embættismanna og kjörinna fulltrúa sem verður til þess að launaþróun þessara hópa verði algjörlega úr takt við það sem almennt gerist. Ég held að við eigum að fylgja á eftir, en við eigum ekki að vera á undan.

Ég hygg að það sé gríðarlega mikilvægt líka vegna þess að annars er svo mikil hætta á, eins og við höfum upplifað hér síðustu árin, að tortryggni skapist í garð kjörinna fulltrúa. Ég held að við eigum ekki að vera að ýta undir það. Það skiptir máli líka að við tryggjum það að dómarar haldi fjárhagslegu sjálfstæði sínu og séu algjörlega óháðir þeim duttlungum sem eru hverju sinni, t.d. hér í þingsal. Það eru dæmi um það að Alþingi hafi talið sig knúið — og kunna að hafa verið rök fyrir því þó að ég sé nú ekki alveg sannfærður um það — til að grípa fram fyrir hendur kjararáðs með lagasetningu og jafnvel lækka laun annarra en þeirra sem sitja hér í þingsal. Það er ekki góður bragur á því.

Ég held að meginatriðið í þessu sé að við tryggjum og sameinumst um það hér í þingsal að við komum launaákvörðunum fyrir þá starfshópa (Forseti hringir.) sem heyra undir kjararáð í þann farveg að sátt sé um það og fyrst og fremst (Forseti hringir.) að það sé gagnsæi og menn viti að hverju þeir ganga.