148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

kjararáð.

630. mál
[15:54]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þá er það varðandi hvaða vald ráðherra hefur til að hækka laun ýmissa hópa sem heyra undir kjararáð sem verður fellt niður með þessum lögum, þannig að kjararáð er lagt af, valdið til launaákvörðunar fyrir ákveðna hópa sem enn heyra undir kjararáð fer í skaut ráðherra. Að hvaða leyti, hvaða hópar eru þetta? Hvað getur hann gert mikið til hækkunar? Hvert verður umboð hans og vald til þess að hækka laun?

Það er frábært að verið sé að fella kjararáð burt. Það er frábært að verið sé að festa laun ráðamanna við meðalhækkanir og að ráðamenn fylgi alltaf á eftir. Ef verðmætasköpun og launahækkanir í samfélaginu eru á einhverju ákveðnu róli, þá fá menn það ekki fyrr en almenningur hefur fengið það. Það er mjög góð meginregla.

Ef formaður nefndarinnar vill skýra fyrir okkur hvaða vald verið er að færa ráðherranum til að taka ákvarðanir tímabundið, en þó ákvarðanir um launahækkanir — hvaða annarra aðila sem heyra undir kjararáð. Það væri mjög gott að fá það skýrt hérna í ræðustól.