148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

kjararáð.

630. mál
[16:06]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sjálfum finnst mér mjög lítill bragur á því þegar menn koma hér í ræðustól þingsins og segja að aðrir hafi brotið lögin, að aðrir hafi ekki farið að lögum, eitthvað sé ólöglegt. Hv. þingmaður verður að átta sig á því að kjararáði er falið að úrskurða um þessi mál, samkvæmt lögum sem um það gilda. Okkur getur fundist þeir úrskurðir illa rökstuddir, getur fundist þeir rangir, en þeim er hins vegar falið að kveða upp úr um þetta. Þá giltu ekki bara meðallaun opinberra starfsmanna heldur hinn almenni markaður (Gripið fram í.) — já, almenn laun — og viðmiðunarstéttir í þeim geira.

Það er kjarni málsins, af því að hér er verið að ræða um þetta, að menn verða að átta sig á því að ekki er hægt að miða við árið 2013 eða 2015. Þær stéttir sem undir ráðið heyrðu fengu í kjölfar hrunsins launalækkun frá 10 upp í 15% og voru síðan frystar í lengri tíma. Svo þegar hækkunin kemur til að vinna það upp eins og alltaf stóð til, þá koma menn og segja: Hér er miklu meiri hækkun en allir aðrir eru að fá. Það er ósanngjörn viðmiðun og gengur ekki upp.

Menn geta ekki haldið því fram að ákvörðunin sé ólögleg af því að hún valdi usla. Ég man aldrei eftir öðru en að ákvarðanir, hvort sem var Kjaradóms gamla eða kjararáðs, hafi valdið usla þegar kemur að þessum stéttum. Það hefur alltaf verið.

Vandamálið er að það var aldrei tekið reglulega á þessum hópum heldur langur tími látinn líða og svo ætluðu menn að vinna það upp. En auðvitað urðu menn fyrir tekjutapi af því að ekki var tekin (Forseti hringir.) ákvörðun fyrr en svo seint. Það var óeðlileg framkvæmd að því leyti til.