148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

kjararáð.

630. mál
[16:12]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þingmaðurinn talar um að ef miðað væri við 2006 hefðum við ekki farið umfram almenna launaþróun. Það er ekki rétt. Ég er bara með tölurnar beint úr forsætisnefnd sem reiknaði það. Ég er með tölurnar beint úr fjármálaráðuneytinu sem reiknaði það. Þeir sem fylgdust með þessum málum á sínum tíma voru sammála um þetta. Þetta eru tölur frá Bjarna Benediktssyni úr fjármálaráðuneytinu, þetta eru tölur sem voru afhentar okkur í forsætisnefnd. Jú, þar kemur fram að eftir að forsætisnefnd tók ákvörðun um að lækka kjör þingmanna um 100.000 eða 150.000 kr., það var mismunandi hvað talað var um og hvernig horft var á það, ákvörðun sem kallað var eftir af formönnum allra flokka hér á þingi, þá lækkar talan það mikið að þó miðað sé við 2006 vorum við komin á almenna launaþróun. (Gripið fram í.) Þá komum við á hinn staðinn. Hv. þm. Brynjar Níelsson verður að horfa á þær tölur. Þær koma bæði frá Bjarna Benediktssyni úr fjármálaráðuneytinu, þær koma til forsætisnefndar og hafa verið reiknaðar hjá okkur. Það er alveg ljóst. (Gripið fram í.) Þá erum við að miða við 2006, árið sem Bjarni Benediktsson og ríkisstjórnin vildi gera á sínum tíma. Alveg ljóst.

Aftur á móti ef við miðum við 2013 þá erum við náttúrlega langt umfram og þessi lækkun á kjörum sem forsætisnefnd gerði dugir ekki til. Hvers vegna ættum við að miða við 2013? 2013 er það viðmið sem 70% launasamninga, þorri launasamninga, á almennum launamarkaði þurfti að miða við. Það var samtalið sem átti sér stað. Þess vegna skiptir það máli út af því að þegar lögin eru lesin þá voru þau sett um að ekki mætti fara umfram almenna launaþróun. Þau voru sérstaklega sett til að passa upp á að ekki væri hægt að hækka launin umfram það sem hinn almenni launþegi væri að fá. Þess vegna var það sett. Það var meira að segja orðað svoleiðis að ákvarðanir kjararáðs mættu ekki skapa hættu á því (Forseti hringir.) að raska kjarasamningum þorra launafólks sem í þessu tilfelli er launafólkið sem þurfti að sætta sig við 2013-viðmiðið. Þess vegna er það sanngjarnt.