148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

skil menningarverðmæta til annarra landa.

466. mál
[16:19]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um breytingu á lögum um skil menningarverðmæta til annarra landa, nr. 57/2011, en lögin fjalla um skil á menningarminjum sem hafa verið fluttar ólöglega frá yfirráðasvæði aðildarríkis EES-samningsins.

Frumvarpinu er ætlað að innleiða öll nýmæli úr tilskipun 2014/60/ESB sem leysir af hólmi tilskipun 93/7/EBE frá 15. mars 1993 um að skila menningarminjum sem hafa verið fluttar ólöglega frá yfirráðasvæði aðildarríkis. Með tilskipun 2014/60/ESB er gildissviðið rýmkað þannig að það nái til hvers konar menningarminja sem aðildarríki flokkar eða skilgreinir samkvæmt landslögum eða stjórnsýslureglum sem þjóðarverðmæti með listrænt sögulegt eða fornfræðilegt gildi í skilningi 36. gr. sáttmálans, um starfshætti Evrópusambandsins. Enn fremur þurfa menningarminjar, flokkaðar eða skilgreindar sem þjóðarverðmæti, ekki lengur að tilheyra flokknum eða uppfylla viðmiðanir að því er varðar aldur og/eða fjárhagslegt gildi til þess að uppfylla skilyrði þess að þeim verði skilað á grundvelli tilskipunarinnar.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnheiði Helgu Þórarinsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti og Kristínu Huld Sigurðardóttur og Þór Hjaltalín frá Minjastofnun Íslands.

Á fundum nefndarinnar komu fram sjónarmið um að gæta þyrfti samræmis milli laga um skil menningarverðmæta til annarra landa og laga um menningarminjar, nr. 80/2012, annars vegar varðandi skilgreiningar á þjóðarverðmæti og hins vegar um tímamörk til að krefjast skila á menningarminjum sem fluttar hafa verið ólöglega frá Íslandi til annars aðildarríkis Evrópska efnahagssvæðisins, samanber 50. gr. þeirra laga. Fram kom að hafin er endurskoðun á lögum um menningarminjar og beinir nefndin því til mennta- og menningarmálaráðuneytisins að taka til skoðunar hvort samræma þurfi skilgreiningar milli laga um skil menningarverðmæta til annarra landa og laga um menningarminjar. Nefndin leggur þó til breytingar á 50. gr. laga um menningarminjar til að gæta að samræmis milli laganna um tímamörk.

Við meðferð málsins í nefndinni komu fram sjónarmið um að nauðsynlegt væri að tryggja Minjastofnun Íslands fjármagn til þess að sinna því hlutverki sem henni er falið með lögum um skil menningarverðmæta til annarra landa. Nefndin áréttar mikilvægi þess að stofnanir haldi sig innan fjárheimilda, en bendir á að tryggja verði stofnuninni nægilegt fjármagn til að sinna lögbundnu hlutverki. Í áliti sínu beinir nefndin því til mennta- og menningarmálaráðuneytisins að endurskoða í samráði við Minjastofnun Íslands hvernig tryggja megi að stofnunin geti annast framkvæmd og fræðslu samkvæmt lögunum.

Nefndin gerir einnig tillögu um að svokallað innleiðingarákvæði bætist við frumvarpið þannig að gerðar verði breytingar á 15. gr. laga um skil á menningarverðmætum til annarra landa og vísað verði til hinnar nýju tilskipunar sem leysir þá eldri af hólmi.

Undir þetta nefndarálit skrifa ásamt þeirri sem hér stendur hv. þingmenn Páll Magnússon formaður, Guðmundur Andri Thorsson, Andrés Ingi Jónsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Birgir Ármannsson, Jón Steindór Valdimarsson, Willum Þór Þórsson og Steinunn Þóra Árnadóttir.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir því helsta í málinu og þakka þeim sem á hlýddu.